Innlent

Halldór spáir ESB aðild fyrir 2015

MYND/Vilhelm Gunnarsson

Halldór Ásgrímsson telur að Ísland verði komið í Evrópusambandið árið 2015. Hann gagnrýnir atvinnurekendur fyrir að hafa ekki rætt þessi mál nóg, en bendir á að launaþegahreyfingin hafi gengið mun lengra. Hann segist ekki hafa rætt þetta við samstarfsflokkinn í ríkisstjórn, en telur að af pólitískum ástæðum sé ekki efni til að ræða málið á kjörtímabilinu.

Forsætisráðherra var ræðumaður á Viðskiptaþingi í dag, þar sem þemað var Ísland árið 2015. Hann sagði að það væri ekki langur tími í stefnumörkun. Hann kom víða við í ræðu sinni. Sagði meðal annars að hátt gengi krónunnar stafaði að litlu leyti af stóriðjuframkvæmdum, frekar af útlánaaukningu bankanna og skuldabréfakaupum útlendinga. Þá væri tímabært að endurskoða lagaákvæði sem takmarka fjárfestingar útlendinga í sjávarútvegi. Hann sagði síðan stóru spurninguna snúast um hvort að Íslendingar verði eftir áratug með sjálfstæðan gjaldmiðil og spáði því að þá yrði þjóðin komin í Evrópusambandið.

Halldór segir vinnu við þetta farna af stað, nefndir starfi á vegum stjórnmálaflokkanna og ríkisstjórnar. Hann segist ekki hafa rætt þessa framtíðarsýn sína við samstarfsflokkinn í ríkisstjórn, en taldi óraunhæft að gera ráð fyrir að eitthvað gerðist á kjörtímabilinu af pólitískum ástæðum. Hann sé ekki að varpa sprengju inn á stjórnarheimilið með þessu. Hann segist hafa reynt eftir bestu getu að efla umræðu um Evrópusambandið þann tíma sem hann var utanríkisráðherra en að skýrslur hans um evruna, stöðu sjávarútvegs og landbúnaðar hafi hlotið litla athygli í atvinnulífinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×