Innlent

Auglýsing Stefáns Jóns aftur í spilun

Stefán Jón Hafstein borgarfulltrúi
Stefán Jón Hafstein borgarfulltrúi MYND/Vilhelm

Auglýsingadeild 365 hugðist stöðva birtingu á útvarpsauglýsingu frambjóðanda í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík, á þeirri forsendu að þar var verið að auglýsa dagskrárlið á annarri útvarpsstöð. Sættir náðust hins vegar í málinu í gærkvöld.

Stefán Jón Hafstein borgarfulltrúi, sem sækist eftir fyrsta sætinu í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík um næstu helgi, sendi frá sér tilkynningu í gærkvöld þar sem hann greinir frá því að auglýsingadeild 365-miðla hygðist stöðva birtingu á auglýsingu á útvarpsstöðvum í eigu fyrirtækisins. Í auglýsingunni kemur fram að fólk geti spurt Stefán Jón, í beinni útsendingu á Útvarpi Sögu, um málefni í tengslum við framboð hans á hverjum degi fram að prófkjörinu, og var auglýsingin spiluð á þremur útvarpsstöðvum í eigu 365 í gær og fyrradag.

Í tilkynningu Stefáns Jóns segir að útskýring auglýsingastjóra 365-miðla, Kristjáns Þóris Haukssonar, á ákvörðuninni væri sú að auglýsingin færi hlustendur frá útvarpsstöðvum 365. Í samtali við fréttamann í morgun staðfesti Kristján Þórir að auglýsingadeildin hafi farið fram á það við kosningastjóra Stefáns Jóns að orðalagi í auglýsingunni yrði breytt, og ásteytingarsteinninn hafi verið sá að verið væri að hvetja hlustendur til að skipta á útvarpsstöð annars fyrirtækis. Hann vildi ekki tjá sig um málið að öðru leyti.

Stefán Jón sagði í tilkynningunni í gærkvöld að ákvörðunin hafi verið í hæsta máta vafasöm, og reyndar svo óskiljanleg að telja yrði víst að hún yrði tekin til endurskoðunar. Frambjóðandinn reyndist þar sannspár því seinna um kvöldið tilkynnti auglýsingastjóri 365-miðla honum það að auglýsingin yrði birt áfram í óbreyttri mynd, og því félli engin fyrirhuguð spilun á henni niður. Í samtali við NFS í morgun sagði Stefán Jón að beðist hafi verið afsökunar á uppákomunni, sú beiðni hafi verið tekin til greina og málinu því lokið af hans hálfu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×