Innlent

Ísland í ESB fyrir 2015

Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, spáir því að Ísland verði gengið í Evrópusambandið fyrir árið 2015. Þetta kom fram í ræðu hans á Viðskiptaþingi Viðskiptaráðs Íslands sem haldið er í dag. Þingið ber yfirskriftina "Ísland árið 2015".

Halldór sagðist alltaf hafa undrast litla umræðu atvinnulífsins um Evrópumálin. Launþegar hafi, einhverra hluta vegna, staðið fyrir meiri umræðu. Augljóst sé að umræðu verður ekki frestað lengi, hvorki í atvinnulífinu né á vettvangi stjórnmálanna. Það eigi ef til vill við í þessu máli líkt og í flestum öðrum stórum málum að þótt vitað sé hvað verði þá sé það ekki líklegt til vinsælda. Óttinn við að rugga bátnum sé of mikill. Þegar ekkert kalli á skjóta niðurstöðu og vel gangi sé oft þægilegra að fresta málinu.

Halldór sagði ekki hægt að líta fram til ársins 2015 án þess að velta fyrir sér hver sé besta leiðin til að tryggja stöðu Íslands í áframhaldandi alþjóðavæðingu. Íslendingar muni búa við meira viðskiptafrelsi og frjálsari fjárfestingastefnu. Í nýrri skýrslu Viðskiptaráðs sé mikil áhersla lögð á alþjóðavæðinguna og þá möguleika sem hún skapi. Þar sé hins vegar ekkert að finna um það hvort ESS samningurinn sé nægilegur grundvöllur í þeirri sýn sem þar kemur fram.

Stóra spurningin er hvort við verðum þá með sjálfstæða íslenska krónu eða hvort við verðum orðnir fullgildir aðilar að Evrópusambandinu. Íslendingar verði að viðurkenna að sveiflur í gengi íslensku krónunnar séu vandamál og spurningar uppi um möguleika lítilla gjaldmiðla á frjálsum fjármálamarkaði. Halldór telur að það sem verði einkum ráðandi í umræðu um það á næstunni verði framtíð og stærð evrópskra myntbandalagsins. Ákvarðanir Dana, Svía og Breta um aðild hafa þar veruleg áhrif.

Það séu hins vegar engar pólitískar forsendur fyrir því að Íslendingar ákveði að ganga í sambandið nú. Til þess sé umræðan ekki nægilega þroskuð. Forsenda þess að málið þroskist betur sé að atvinnulífið láti það til sín taka með mun virkari hætti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×