Innlent

Tryggingafélög virðast brjóta lög

Tryggingafélögin virðast brjóta lög með því að neita fólki um sjúkratryggingar gegn ákveðnum sjúkdómum á grundvelli upplýsinga um arfgenga sjúkdóma foreldra og systkina. Persónuvernd segir að friðhelgi einkalífsins sé ekki virt og Fjármálaeftirlitið skoðar framkvæmd þessara mála.

Eins og kom fram í fréttum okkar í gær hafa tryggingafélög fellt ákveðna sjúkdóma út úr sjúkratryggingum fólks sem á foreldra með ólæknandi sjúkdóma eins og MS og MND. Þá eru einnig dæmi um slíkt vegna hjarta og æðasjúkdóma og brjóstakrabbameins. Formaður félags MS sjúklinga sagði þetta hneyksli og afar sársaukafullt að aðstandendum sjúklinga væri refsað á þennan hátt. Persónuvernd gerði öryggisúttekt á tryggingafélögunum í ágúst, og Særún María Gunnarsdóttir lögfræðingur hjá Persónuvernd segir að stofnunin hafi komist að þeirri niðurstöðu að óheimilt væri að biðja viðskiptavini um uppýsingar um arfgenga sjúkdóma foreldra og systkina. Þau áttu samkvæmt tilmælum Persónuverndar að hætta að biðja um þessar upplýsingar ekki seinna en fyrsta janúar árið 2006.

Einstaklingar sem höfðu samband við fréttastofu í dag og gær höfðu hinsvegar fengið slíka synjun í janúar.

Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með vátryggingastarfsemi. Óheimilt er samkvæmt lögum um vátryggingar að óska eftir eða afla með einhverjum öðrum hætti, taka við eða hagnýta sér upplýsingar um erfðaeiginleika manns eða áhættu á því að hann þrói með sér eða fái sjúkdóma.

Jónas Friðrik forstjóri Fjármálaeftirlitsins segir að stofnunin sé þessa dagana að afla upplýsinga um framkvæmd þessara laga hjá Tryggingafélögunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×