Innlent

150 kosið utankjörstaðar í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík

Um 150 manns hafa kosið utankjörstaðar í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík, sem fram fer dagana 11. og 12. febrúar næstkomandi. Utankjörstaðaratkvæðagreiðsla hófst á þriðjudag í síðustu viku.

Þrír berjast um fyrtsa sæti á lista Samfylkingarinnar, þau Steinunn Valdís Óskarsdóttir, borgarstjóri, Stefán Jón Hafstein, formaður menntaráðs og Dagur B Eggertsson borgarfulltrúi. Þetta er fyrsta prófkjör Samfylkingarinnar fyrir borgarstjórnarkosningar.

Hægt er að kjósa utankjörfundar á skrifstofu flokksins að Hallveigarstíg 1 til kl. 20 á kvöldin.

Prófkjörsdagana á laugardag og Sunnudag verða kjördeildir í félagsheimili Þróttar í Laugardal, félagsheimili Fylkis í Árbæ, VÍSA húsinu í Mjódd, skrifstofu flokksins að Hallveigarstíg og að Gylfaflöt 9 í Grafarvogi. Kjörstaðir verða þá opnir milli kl. 10 til 18.

Prófkjörið er opið öllum sem náð höfðu kosningaaldri um miðjan janúar. Búist er við að fyrstu tölur liggi fyrir fljótlega eftir að kjörstöðum lokar kl. 18 á sunnudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×