Innlent

Margmiðlunartækni í landnámsbæ

Margmiðlunartækni verður notuð til hins ítrasta þegar landnámsbærinn í Hótel Reykjavík Centrum verður opnaður almenningi í maí. Meðal annars má sjá landnámsmenn ganga um og rota geirfugla sér til matar. Ekki er ólíklegt að Ingólfur Arnarson hafi verið meðal þeirra.

Elsta mannanna verk sem vitað er um í Reykjavík er veggur sem öskulög sýna að hafði þegar verið uppi standandi árið áttahundruð sjötíu og eitt. Við hann er svo langhús mikið sem talið er að hafi verið reist um níuhundruð og þrjátíu.

Rústir þessar fundust árið 2001 þegar verið var að grafa grunn í Aðalstræti 16 fyrir Hótel Reykjavík. Ákveðið var að varðveita rústirnar í kjallara þess og opna þar sýningarsal. Þar verður margmiðlunartækni beitt til hins ítrasta, til þess að gera sýninguna líflega. Á veggnum umhverfis rústirnar verða myndir sem sýna umhverfi Reykjavíkur eins og það var á þeim tíma sem þarna var byggð.

Staðarlíkan verður á stóru borði og með því að benda á mismunandi staði á því koma fram upplýsingar um viðkomandi. Þá verða glerveggir á ýmsum stöðum í safninu og við það að ganga framhjá þeim koma fram myndir, bæði úr húsinu sjálfu og utan þess. Sjá má langeld loga og fólk að störfum. Einnig má sjá fólk utan dyra, meðal annars við veiðar á geirfuglum, en mikið af geirfuglabeinum fannst í öskuhaug skammt frá húsinu.

Þetta er í fyrsta sinn sem rústir úr torfi eru forvarðar til sýningar innanhúss. Tveir danskir fornleifafræðingar hjálpuðu til við að finna réttu efnin og réttu aðferðina til þess að binda torfleifarnar svo þær molni ekki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×