Innlent

Þrjár bílveltur í gær og í nótt

Sex manns sluppu ótrúlega vel úr þremur veltum í gærkvöldi og nótt, en tveir bílanna eru gjör ónýtir. Fyrst valt bíll úr af veginum í Súgandafirði í gærkvöldi og fór nokkrar veltur inn á túnið við bæinn Botn. Þrjú ungmenni sem voru í bílnum tognuðu eitthvað og mörðust og dvöldu á sjúkrahúsinu á Ísafirði í nótt til rannsóknar. Björgunarmenn þurftu að beita klippum til að ná tveimur út úr flakinu. Þá valt jeppi á mótum Bústaðavegar og Litlu hlíðar eftir miðnætti. Roskin hjón, sem voru í honum sluppu nær ómeidd. Loks fór bíll út af veginum á Hellisheiði í nótt og bæði valt og endastakkst. Ökumaður var einn í bílnum og slapp nær ómeiddur þótt bíllinn væri svo laskaður að aðeins eitt hjól var eftir undir honum. Hann var að tala í farsíma, en þegar sambandið rofnaði skyndilega lét viðmælandinn lögreglu vita að ekki væri allt með felldu. Hálka var á vettvangi allra slysanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×