Innlent

Bygging hátæknisjúkrahúss vitleysa

Fyrrverandi yfirlæknir á Landspítalanum segir byggingu hátæknisjúkrahúss við Hringbraut gamla og vitlausa stefnu sem kosti of mikið. Hann segir nær að nýta betur þann góða spítala sem Landspítalinn í Fossvogi er.

Alls verður 18 milljörðum af söluandvirði Símans varið til þess að byggja upp nýtt hátæknisjúkrahús en það nemur um helmingi áætlaðs kostnaðar við bygginguna. Fyrrverandi yfirlæknir á Landspítalanum, Ólafur Örn Arnarson, segir þessa hugmynd úrelta. Ólafur segir hugmyndina náttúrulega mjög dýrt fyrirtæki, það sé verið að tala um 50-60 milljarða sem það kosti að reisa þetta sjúkrahús. Síðan eigi að brjóta niður hús í Vatnsmýrinni sem sé um 9000 fermetrar og í mjög góðu standi. Síðan eigi að henda spítalahúsinu í Fossvogi, sem sé 30 þúsund fermetrar og sé besta spítalahús landsins í dag. Þar séu bestu legudeildir landsins, nýuppgerðar skurðstofur og gjörgæsla o.fl. og að mjög auðvelt sé að byggja við það.

Danskir ráðgjafar voru fengnir hingað til þess að meta aðstæður og leiddi Ólafur þá um svæðið. Hefur Ólafur eftir þeim að Fossvogurinn sé langbesta svæðið. Það sé best staðsett með tilliti til íbúa Reykjavíkurborgar sem þurfa á þessari þjónustu að halda.

Ólafur segir slíkt sjúkrahús alltof stórt fyrir 300 þúsund manns. Í nágrannalöndunum hafi þróunin verið sú að ýmis þjónusta hafi verið að færast frá sjúkrahúsunum og inn á dagdeildir og heilsugæslu. Hann segir þetta vera vitlausa stefnu og gamla stefnu og að byggja eigi við spítalann í Fossvogi. Það sé hægt að gera það á tilltölulega stuttum tíma. Peningarnir sem komu fyrir sölu símans, 18 milljarðar, myndu auðveldlega duga fyrir það og þá væri hægt að ná fram þeim sparnaði í rekstri sem að sameining líkamlegu bráðadeildanna á einn stað býður upp á.

Þá segir Ólafur að fjölgun hjúkrunarrýma myndi lækka kostnað á sjúkrahúsunum til muna. Segir hann alltof fá hjúkrunarpláss vera í landinu. Samkvæmt ráðuneytinu skorti um 400 hjúkrunarpláss mjög bráðlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×