Innlent

Ókeypis hádegismatur ella verði stéttaskipting

Svandís Svavarsdóttir.
Svandís Svavarsdóttir.

Bjóða þarf grunnskólabörnum upp á ókeypis hádegismat til að koma í veg fyrir stéttaskiptingu að mati leiðtoga Vinstri grænna í borgarstjórnarkosningunum í vor.

Svandís Svavarsdóttir sem mun leiða Vinstri græna í borgarstjórnarkosningum í vor hefur áhyggjur af því að ekki hafi allir foreldrar efni á því að kaupa hádegismat í grunnskólum borgarinnar fyrir börnin sín. Svandís segir að sér finnist það vera stór spurning þegar að það lítur út fyrir að þó nokkur hluti barna í Reykjavík nýti sér ekki hádegismat sem boðinn er í skólunum vegna efnahags og að það hljóti að vera mjög alvarlegur hlutur. Vegna þess að máltíðin og skólamáltíðin hljóti að vera sá mikilvægi viðburður í skóladeginum sem allt snýst í kringum og þar sem krakkarnir geti setið saman og spjallað saman, fyrir utan það að borða og njóta matarins. Því sé það náttúrulega óþolandi ef einhver fer á mis við þennan hlut bara vegna efnahags.

Spurð að því hvort það sé ekki möguleiki að matvendni frekar en efnahagur ráði því að börn borði ekki matinn sem boðið er upp á í skólanum segir Svandís að það séu örugglega mjög margar ástæður fyrir því. En hins vegar þá sé það þannig að þó það sé bara einhver hluti af þessum krökkum sem ekki nýti sér matinn, þá geri það einhverjir vegna fátæktar.Segir hún staðfestingu hafa fengist á þeim grun frá skólastjóra Fellaskóla sem telji að það séu fullar líkur á því að þetta sé ein meginástæðan. Það sem þurfi því að gera er að bjóða ókeypis hádegismat í grunnskólum borgarinnar. Það sé risastórt verkefni sem þurfi að ráðast í.

Svandís vill ekki láta staðar numið við hádegismatinn, heldur vill hún líka að eitthvað verði gert í misskiptingu tómstunda. Segir hún að sjálfsagt sé eitthvað hægt að gera eitthvað í þessum mun og að þarna greini að vinstrimenn og þá sem aðhyllast meira markaðshyggjuna og segja að hver og einn eigi að borga fyrir sig það sem hann hefur efni á fyrir sig og sín börn. Vinstri grænir segi að þetta eigi að fjármagna úr sameiginlegum sjóðum, vegna þess að börnin séu á ábyrgð borgarinnar. Börnin séu ekki bara á ábyrgð sinna foreldra vegna þess að þau þurfi á okkur öllum að halda. Það þurfi meira en eina fjölskyldu til að ala upp barn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×