Innlent

Ólga meðal menntaskólakennara

Menntaskólinn í Reykjavík
Menntaskólinn í Reykjavík MYND/Teitur Jónasson

Mikil ólga er meðal kennara í menntaskólum landsins vegna samkomulags menntamálaráðherra og kennaraforystunnar sem undirritað var í gær. Þar er meðal annars er náð sátt um samstarf við endurskoðun á námi í tengslum við styttingu á námstíma til stúdentsprófs. Félag kennara Menntaskólans í Reykjavík hefur ályktað gegn samkomulaginu og kennarar í öðrum menntaskóla hafa jafnvel rætt úrsögn úr Kennarasambandinu.

Fréttastofa NFS hefur rætt við kennara í 5 menntaskólum og segja þeir kennara undrandi og slegna yfir þessu samkomulagi. Enn sem komið er hafa þó Kennarar í Menntaskólanum í Reykjavík einir ályktað gegn samkomulaginu.

Guðmundur J. Guðmundsson, trúnaðarmaður kennara í MR, segir styttingu náms til stúdentsprófs varasama og geta endað með skelfingu fyrir menntakerfið. Hann segir það vilja kennara að menntamálaráðherra dragi hugmyndir sínar um skerðingu til baka og taki málið þannig fyrir að öll skólastig verði tekin fyrir og endurskoðuð sem ein heild. Guðmundur segir formann Kennarasambands Íslands ekki hafa fengið neitt umboð frá félagsmönnum til þessarar samkomulagsgerðar.

Í bréfi sem stjórn Félags framhaldsskólakennara hefur sent félagsmönnum segir að stjórn félagsins og kennarasamtökin hafi verið þeirrar skoðunar að hagsmunum nemenda og skóla væri betur borgið með að hafa áhrif á málið en að láta það ógert. Samkomulagið sé ekki merki um að kennarasamtökin hafi bakkað með stefnu sína í málinu og ætli aldrei að ljá máls á niðurskurði á námi nemenda og minni menntun. Aðkoma kennara ætti að auka líkurnar á að hægt verði að hrinda skerðingaráformum og stjórnin biður því um fararleyfi til að láta reyna á þetta grundvallaratriði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×