Innlent

Tveir þriðju vilja álver

Helguvík.
Helguvík.

Tveir af hverjum þremur íbúum í Reykjanesbæ eru hlynntir því að álver verði reist í Helguvík. Þetta kemur fram í nýrri skoðanakönnun sem Gallup gerði fyrir Hitaveitu Suðurnesja. Nítján prósent íbúa eru andvíg álveri en fimmtán prósent taka ekki afstöðu.

Júlíus Jónsson, forstjóri Hitaveitu Suðurnesja, segir í fréttatilkynningu að það sé eftirtektarvert hve skýr meirihluti í öllum aldurshópum og hjá báðum kynjum sé fylgjandi byggingu álvers. "Við hljótum að líta á þessa niðurstöðu sem mikilvægan stuðning í þeirri undirbúningsvinnu sem nú er í gangi í samstarfi við Reykjanesbæ og Norðurál um álver í Helguvík.

Sextíu prósent kvenna og rúm sjötíu prósent karla eru hlynnt byggingu álvers. Mestur er stuðningurinn í aldursflokknum 25 til 34 ára.

Spurningin var: "Norðurál hefur sýnt áhuga á að reisa álver í Helguvík sem yrði knúið jarðvaarmaorku frá Hitaveitu Suðurnesja. Ert þú hlynnt(ur) eða andvíg(ur) því að reist verði álver í Helguvík?" Úrtakið var 746 íbúar í Reykjanesbæ og 532 eða 71,3 prósent svöruðu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×