Innlent

Tekist á um umhverfismál á þingi

MYND/GVA

Þingmaður vinstri - grænna segir nýja úttekt Ríkisendurskoðunar á aðild Íslands að Samningnum um líffræðilega fjölbreytni áfellisdóm yfir stjórnvöldum í umhverfismálum. Umhverfisráðherra hafnar því og segir stefnumótunartillögu í umhverfismálum að vænta á þessu ári.

Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður vinstri - grænna, var málshefjandi í utandagskrárumræðu á Alþingi í morgun þar sem rætt var um skýrslu Ríkisendurskoðunar um aðild Íslands að Samningnum um líffræðilega fjölbreytni sem tók gildi 1994. Samningurinn snýr að umhverfismálum og í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir meðal annars að aðild Íslands að samningnum hafi haft takmörkuð áhrif á löffgjöf og opinbera stefnu um líffræðilega fjölbreytni þá segir Ríkisendurskoðun að samningurinn hafi ekki leitt til meiri rannsókna og aukinnar áherslu á náttúruvernd.

Kolbrún sagði umhverfisráðherra síðustu ára hafa sagt framkvæmdaáætlun í málinu á næsta leiti en ekkert hefði gerst. Þá sagði Kolbrún að í samningnum væri þess krafist að tillit væri tekið til náttúrunnar eða líffræðilegra auðlinda. Ný löggjöf sem sniðgengi þessi grundvallarmarkmið og væri því brot á samningnum væru lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu.

Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherrasagði samninginn hins vegar hafa haft ýmis áhrif á stefnumörkun stjórnvalda á sviði umhverfismála. Hún viðurkenndi þó að greining og vöktun náttúrunar stæði veikast og sagði starf að stefnumótun um líffræðilega fjölbreytni ætti að ljúka á árinu.

Sigríður Anna sagði enn fremur að hún liti ekki á skýrsluna sem áfellisdóm yfir íslenskum stjórnvöldum. Hún kæmi hins vegar að góðu gagni í stefnumótunarferli umhverfisráðuneytisins. Verið væri að vinna að markmiðum samningsins með mjög markvissum hætti og þeirri vinnu yrði lokið síðar á árinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×