Innlent

Nóttin hjá lögreglu um landið að mestu tíðindalaus

Úr myndasafni
MYND/Stefán Karlsson

Þrettán voru handteknir í eftirlitsaðgerðum fíkniefnadeildar lögreglunnar í Reykjavík við og á skemmtistöðum í miðborginni í fyrrinótt. Allir reyndust hafa í fórum sínum eitthvert magn af hassi, amfetamíni, kókaíni, maríjúana og ofskynjunarsveppum, að því er Fréttablaðið greinir frá í dag.

Mennirnir voru færðir á lögreglustöð til yfirheyrslu, en sleppt að þeim loknum þar sem málin töldust upplýst. Ekki er vitað til þess að slík rassía hafi einnig verið gerð í miðborginni síðustu nótt, en nóttin var annars róleg hjá lögreglu um allt land.

Í Reykjavík bar hæst að maður um tvítugt tapaði fjórum tönnum eftir að hann var kýldur í miðborginni. Hann var fluttur á slysadeild til aðhlynningar en gat ekki gefið lýsingu á árásarmanninum.

Fjórir voru teknir fyrir ölvunarakstur sem er töluvert minna en í fyrrinótt þegar ellefu stútar voru stöðvaðir. Á Akureyri var einn tekinn með lítilræði af amfetamíni í fórum sínum en honum var sleppt að lokinni yfirheyrslu þá gisti einn fangageymslur lögreglunnar á Akureyri, aðallega vegna þess að hann hafði ekki í nein hús að venda að sögn lögreglu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×