Innlent

Efnahagsuppbygging á Íslandi einna hröðust í heiminum

Hagvöxtur hér á landi var rúmlega fimm prósent í fyrra, sem er nánast einsdæmi á Vesturlöndum. Hástökkvararnir í hagvexti eru hins vegar risarnir í Asíu, Kína, þar sem hagvöxturinn var níu prósent í fyrra, og Indland þar sem hagvöxturinn var rúm sjö prósent. Ísland er þannig í flokki þeirra landa þar sem efnahagsuppbygging hefur verið einna hröðust í heiminum.

Óvenjulegt þykir að hagvöxtur á Íslandi, sem fyrir er meðal ríkustu ríkja heims, sé á við vöxt margra þróunarlanda sem hingað til hafa búið við mjög kröpp kjör en færast nú hröðum skrefum í átt til betra lífs. Aðalástæður mikils hagvaxtar hérlendis eru erlendar fjárfestingar í stóriðjuframkvæmdum sem og arðbærar fjárfestingar fyrirtækja landsins.

Jón Bjarki Bentson, sérfræðingur í Greiningu Íslandsbanka, segir fjárfestingar í stóriðju hafa drifið þá uppsveiflu sem hefur verið hér undanfarin ár. En að einnig hafi komið til víðtæk kerfisbreyting í fjármálakerfinu sem hafi skilað okkur vel fram á veg og bætt við kaupmátt og þar af leiðandi neyslu landsmanna.

Ekki er þó alveg eins bjart framundan en spá Íslandsbanka gerir ráð fyrir 4,3% hagvexti á þessu ári sem er þó um tvöfalt meiri vöxtur en gert er ráð fyrir annars staðar á Vesturlöndum og rúmlega helmingur á við hagvöxt víða í Asíu. Árið 2007 er hins vegar gert ráð fyrir stöðnun í landsframleiðslu og jafnvel neikvæðum hagvexti.

Jón Bjarki segir eitthvað draga úr vexti fjárfestinga og að fjárfesting í stóriðju verði eitthvað minni heldur en á fyrra ári. Þá sjái fyrir mettunaráhrif í einkaneyslu en gríðarlegur vöxtur hafi verið í henni í fyrra.

Ekki er þó um viðvarandi ástand að ræða en árið 2008 er gert ráð fyrir að hagvöxtur aukist á ný og verði um eða yfir 3% árin 2008 og 2009.

Ekki er gert ráð fyrir fleiri stóriðjuframkvæmdum í hagvaxtarspá fyrir árin 2008 og 2009 þannig að ef af þeim áformum verður eykst hagvöxtur í samræmi við stærð framkvæmda.

Og spár um minni hagvöxt á næsta ári gera ekki ráð fyrir auknum stóriðjuframkvæmdum. Komi þær til má gera ráð fyrir enn meiri hagvexti á næstu árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×