Innlent

Lífskjör á Íslandi heldur lakari en á Norðurlöndum

Mynd/GVA

Efnahagsleg lífskjör á Íslandi eru sambærileg við eða heldur lakari en á Norðurlöndum, vinnutími mun lengri og opinber þjónusta dýrari. Íslendinga þurfa því að hafa þeim mun meira fyrir því að viðhalda sambærilegum kjörum og gerist á Norðurlöndum.

Í skýrslu sem hagdeild ASÍ tók saman nú í janúar, um samanburð á lífskjörum á Norðurlöndunum, kemur fram að Íslendingar standast vel samanburð við Danmörku, Noreg og Svíþjóð þegar litið er til heildarlauna. Staðan breytist þó þegar vinnutími og verðlag er tekið með í reikninginn en þá verða Íslendingar í flestum tilvikum eftirbátar hinna Norðurlandanna.

Þegar litið er til ráðstöfunartekna nokkurra hópa má sjá að barnafjölskyldur á Íslandi hafa áþekkar ráðstöfunartekjur og þær sænsku en lægri en þær dönsku og norsku. Á hinn bóginn hafa einhleypir einstaklingar á Íslandi að jafnaði hærri ráðstöfunartekjur en á Norðurlöndunum.

Laun kvenfólks á Íslandi standast verr samanburð við laun kvenna á Norðurlöndum en laun íslenskra karla samanborið við norræna karlmenn. Hlutfall bóta á Íslandi er oft sambærilegt við hin löndin en þó er Ísland einungis rétt um hálfdrættingur á við Norðurlöndin hvað varðar framlög til barnabóta á íbúa.

Lífskjör á Norðurlöndunum eru einna helst ólík innbyrðis að því leyti að stjórnvöld í Danmörku og Svíþjóð taka til sín hærri skatta og veita ódýrari þjónustu en gert er á Íslandi og í Noregi. Til að mynda þurfa fjölskyldur á Íslandi að greiða meira fyrir heilbrigðisþjónustu og lyf og einnig fyrir menntun og tómstundir barna sinna. Íslenska skattkerfið er því minnst nýtt til tekjujöfnunar af Norðurlöndunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×