Erlent

Hamasliðar kokhraustir

Hamasliðar fagna sigri eftir kosningarnar í gær.
Hamasliðar fagna sigri eftir kosningarnar í gær. MYND/AP

Forsætisráðherra Palestínu hefur sagt af sér en í þingkosningunum í gær náðu hin herskáu Hamas-samtök það góðum árangri að þau hljóta að teljast sigurvegarar kosninganna. Hamas-liðar eru kokhraustir og hafa lýst yfir fullnaðarsigri í þingkosningunum.

Útgönguspár benda til þess að hvorki Fatah-flokkurinn né Hamas-samtökin hafi náð hreinum meirihluta í kosningunum en ráði þó samtals yfir um 110 af 132 þingsætum. Ef af verður þykja úrslitin áfall fyrir Mahmoud Abbas, forseta heimastjórnarinnar. Hamas-liðar hafa verið kokhraustir í yfirlýsingum sínum og jafnvel gengið svo langt að lýsa því yfir í fjölmiðlum á borð við Haaretz í Ísrael og á Al-Jazeera sjónvarpsstöðinni að þeir hafi náð hreinum meirihluta.

Búist er við úrslitum kosninganna síðdegis í dag en upphaflega átti að birta tölur í morgun. Því hefur líklega verið frestað vegna þeirrar óvæntu stöðu sem nú er komin upp.

Allt lítur út fyrir að Hamas geti myndað stjórn með einhverjum af hinum níu framboðunum sem ein og hálf milljón kjósenda gat valið á milli. Ljóst má telja að það myndi valda usla í friðarferlinu fyrir botni Miðjarðarhafs ef Hamas kæmist í ríkisstjórn enda hafa Ísraelsstjórn, Bandaríkjastjórn og Evrópusambandið lýst því yfir að litið sé á Hamas sem hryðjuverkasamtök sem ekki verði tjónkað við. Bandaríkjamenn hafa þá áréttað þá afstöðu sína enn frekar eftir að útgönguspár birtust en Evrópusambandið aftur á móti virðist ætla að leyfa Hamas að njóta vafans og segist geta unnið með friðsamri ríkisstjórn hvernig sem hún er skipuð, enda fordæmi fyrir því að herská samtök taki upp friðsamleg vinnubrögð.

Ehud Olmert, starfandi forsætisráðherra Ísrael, sagði í morgun að ekki yrði unnið með ríkisstjórn sem Hamas á aðild að. Ahmed Qurei, forsætisráðherra, sagði af sér í morgun og lýsti þeirri skoðun sinni að eðlilegt væri að Hamas-samtökin mynduðu næstu ríkisstjórn í ljósi úrslitanna. Sem fyrr segir verða úrslitin birt síðar í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×