Innlent

Styttist í prófkjör Framsóknarflokksins

Ekki hefur verið boðinn fram B listi Framsóknarflokksins í borginni síðan árið 1990. Prófkjör flokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor verður um helgina og hefur utankjörfundarkosning gengið vel.

Það eru þrír sem sækjast eftir því að leiða Framsóknarflokkinn í komandi borgarstjórnarkosningum í Reykjavík. Þetta eru þau Anna Kristinsdóttir, Björn Ingi Hrafnsson og Óskar Bergsson. Kosið verður um sex efstu sætin í prófkjörinu sem fram fer á laugardaginn kemur. Frambjóðendur í prófkjörinu eru ellefu talsins, sex karlar og fimm konur.

Allir Reykvíkingar sem náð hafa 18 ára aldri þann 27. maí næstkomandi, þegar borgarstjórnarkosningar fara fram í Reykjavík, geta tekið þátt í prófkjörinu. Utankjörfundarkosning hefur staðið yfir síðan í byrjun vikunnar og hefur hún gengið vel að sögn Ragnars Þorgeirssonar formanns kjörstjórnar. Fyrstu tölur í prófkjörinu verða birtar við lokun kjörstaðar klukkan sex á laugardaginn og vonast er til að úrslitin verði ljós í kringum miðnætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×