Innlent

Leynd yfir ofurkjörum og starfslokasamningum

Mynd/GVA

Fyrirtæki sem ekki eru skráð í Kauphöllinni þurfa ekki að upplýsa í ársreikningum um ofurkjör eða starfslokasamninga stjórnenda sinna. Þau falla undir reglur Fjármálaeftirlitsins um upplýsingaskyldu sem ganga ekki jafn langt. Viðskiptaráðherra segir ekki á dagskrá að gera Lífeyrissjóðum skylt að birta slíkar upplýsingar í ársreikningi.

Jóhanna Sigurðardóttir benti á í fyrirspurnartíma á Alþingi að í leiðbeinandi reglum frá Fjármálaeftirlitinu til lífeyrissjóða, lánastofnana og fyrirtækja, væri ekki gert ráð fyrir að veita þyrfti upplýsingar í ársreikningum um starfslokasamninga eða kaupréttarsamninga. Þetta stangist á við reglur um fyrirtæki sem séu skráð í Kauphöllinni.

Þingmaðurinn sagðist ekki sjá neina ástæðu til þess að launakjör stjórnenda lífeyrissjóða og sparisjóða eða annarra fyrirtækja væri haldið leyndum meðan upplýsingaskylda væri um kjör stjórnenda banka sem væru skráðir í Kauphöll.

Þá sagði hún engar reglur í gildi um upplýsingagjöf í ársreikningum tryggingafélaganna, líkt í gerðist um fyrirtæki í Kauphöllinni.

Ráðherrann sagði slíkar upplýsingar eiga að þjóna hagsmunum fjárfesta. Því þyrfti ekki upplýsingar um fyrirtæki sem ekki væru skráð á markaði. Ný frumvörp um hlutafélagalög og einkahlutafélög gerðu ráð fyrir upplýsingaskyldu um kjör stjórnenda og stjórnarmanna á aðalfundi. Þau ættu þó aðeins við um lánastofnanir og vátryggingarfélög, sem bæri skylda til að kjósa sér endurskoðanda, en ekki um sparisjóði, lífeyrissjóði, gagnkvæm vátryggingarfélög og minni félög. Vátryggingarfélög og lífeyrissjóðir myndu áfram lúta eftirliti Fjármálaeftirlitsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×