Innlent

Enn fleiri uppsagnir á leikskólum í Kópavogi

Mynd/Vilhelm Gunnarsson
Tugir ófaglærðra starfsmanna á leikskólum Kópavogs hafa sagt upp störfum vegna óánægju með kjör sín. Átta starfsmenn leikskólans Dals skiluðu inn uppsagnarbréfum í dag. Myndmenntarkennari í skólanum fær um það bil sextíu þúsund krónum hærri laun í Reykjavík.

 

 

Þorvaldur Daníelsson, talsmaður foreldrafélaga leikskólanna í Kópavogi, segir að væntingar vegna launamálaráðstefnu sveitarfélaga hafi ekki gengið eftir.

 

 

Þorvaldur segir að þegar hafi verið greint frá uppsögnum á leikskólunum Núpi, Rjúpnahæð og Fífusölum. Í síðustu viku hafi svo rúmlega tuttugu sagt upp á leikskólunum Kópasteini, Álfaheiði og Furugrund. Þá sögðu átta upp á Dal í dag. Sóley Gyða Jörundsdóttir, leikskólastjóri Dals í Kópavogi, sendi öllum foreldrum barna í skólanum bréf í morgun og tjáði þeim að átta manns hefðu sagt upp störfum í gær með þeim fyrirvara að ef launakjör þeirra batni og muni þeir draga uppsagnir til baka. Sóley sagði það nauðsynlegt að upplýsa foreldra sem best um stöðu mála í leikskólanum.

 

 

Þorvaldur Daníelsson segir að myndmenntarkennarinn á Dal, sem er skilgreindur sem ófaglærður, sé að hætta og hafi ráðið sig í Reykjavík þar sem hann fái um sextíu þúsund krónum hærri laun fyrir sömu vinnu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×