Innlent

Tíunda hvert barn í leikskólum Reykjavíkur af erlendum uppruna

Mynd/Gunnar V. Andrésson

Tíunda hvert barn í leikskólum Reykjavíkur er af erlendum uppruna. Þessi börn eiga rætur að rekja til áttatíu og tveggja þjóða í öllum heimsálfum. Reykjavíkurborg kynnti fjölmenningarstefnu leikskóla Reykjavíkur í dag, en vonir eru bundnar við að þetta átak dragi úr brottfalli þessara barna úr skóla síðar á lífsleiðinni.

Um helmingur barnanna 50 sem eru á leikskólanum Fellaborg í Breiðholti er af erlendum uppruna og eru börnin af ellefu þjóðernum. Könnun á meðal leikskóla Reykjavíkurborgar hefur leitt í ljós að á 50 leikskólum borgarinnar eru 430 börn af erlendum uppruna, sem eru um tíu prósent leikskólabarna. Þau eiga rætur að rekja til 82 þjóða í öllum heimsálfum. Vegna þessarar þróunar hefur verið tekin upp ný fjölmenningarstefna við leikskóla borgarinnar, enda segir Stefán Jón Hafstein, formaður menntaráðs, að þegar bakgrunnur barnanna sé eins fjölbreyttur og raun ber vitni þurfi að huga að mörgu.

Stefán segist sannfærður um að aðgerðir sem þessar, þegar á leikskólastiginu, muni draga úr brottfalli þessa hóps á framhaldsskólastiginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×