Innlent

Nýr líkbrennsluofn ekki keyptur fyrr en eftir tíu ár

Mynd/Gunnar V. Andrésson

Kirkjugarðar Reykjavíkur telja ekki ástæðu til að kaupa nýjan líkbrennsluofn, fyrr en eftir tíu ár, þrátt fyrir að sá gamli sé að verða sextugur. Á síðustu árum hefur tekist að draga verulega úr brunalykt í nágrenni líkbrennslunnar með endurbótum á ofninum og með því að byrja líkbrennslu fyrr á daginn þegar flestir eru í fastasvefni.

Fyrir nokkrum árum komu fram kvartanir frá leikskóla á móti kirkjunni þar sem börn og starfsmenn urðu varir við megna brunalykt þegar ofninn var í notkun. Úr því hefur nú verið bætt með aðstoð dansks sérfræðings sem fór yfir tækin, stillti þau og bætti við tækjum svo dregið var verulega úr mengun.

Þrátt fyrir að flestar ef ekki allar líkbrennslur Norðurlanda séu komnar með eftirbrennslu og þar með lyktarlausa ofna, þá verður ekki keyptur nýr ofn í Fossvoginn, þar sem líkbrennsla á að fara fram næsta áratuginn. Eftir tíu ár er svo ætlunin að flytja líkbrennsluna upp í Hallsholt í Grafarvogi og þá verður keyptur nýr ofn sem verður algerlega lyktarlaus.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×