Erlent

Tímabært að refsa Írönum

Það er löngu tímabært að Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna refsi Írönum vegna kjarnorkuáætlana sinna. Þetta sagði Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í gær. Hún sagði mikilvægt að þjóðir heims stæðu saman í þessu máli.

Rice sagði á fundi með utanríkisráðherra Ítalíu í gær að Bandaríkjamenn, Evrópumenn sem og nokkur önnur ríki teldu löngu tímabært að vísa málinu til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, eina leiðin til að fá Írana til að hætta við kjarnorkuáætlanir sínar, væri að refsa þeim. Rice sagði ennfremur að Bandaríkin myndu þrýsta á að það yrði gert á sérstökum fundi með Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni, sem fer fram snemma í næsta mánuði. Rice vildi þó ekki segja til hvernig refsiaðgerða öyrggisráðið gæti gripið til, né vildi hún tjá sig nokkuð um það hvort að Bandaríkin yrðu sátt með vægari refsingu en alþjóðlegar viðskiptahömlur. Rice sagði mikilvægt að þjóðir heims stæðu saman að því að koma í veg fyrir að Íranar fái að halda áfram með kjarnorkuáætlun sína og hafa Frakkar, Þjóðverjar og Bretar tekið undir með utanríkisráðherranum og útilokað frekari viðræður við Írana fyrr en þeir hafa fallið frá kjarnorkuáætlunum sínum. Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur þó sagst vilja bíða með refsiaðgerðir sem oftast nær skili engu og hafa Rússar tekið undir með honum. Aðalsamningamaður Írana í kjarnorkumálum mun eiga fund í dag með rússneskum embættismönnum í Moskvu. Rússnesk stjórnvöld vilja og hafa boðið Íransstjórn að auðga úran í Rússlandi og flytja það til Írans til að vinna úr því raforku. Þar sem Íransstjórn hefur sagst ætla að halda sínu striki hvað varðar kjarnorkurannsóknir, er búist við því að rædd verði sú hugmynd að Íranar fái að auðga úran sjálfir en innan rússneskra landamæra. Stjórnvöld í Íran eru hissa og reið vegna yfirgangs Vesturlanda og sagt það rétt sinn og vilja þegna landsins að úran verði framleitt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×