Innlent

Má rífa öll húsin á svæðinu

Fyrirhugað er að byggja allt að 240 íbúðir á Rauðarárholti í Reykjavík. Samkvæmt deiliskipulagstillögu má rífa öll húsin á svæðinu sem standa þar nú.

Svæðið sem um ræðir afmarkast af Einholti, Stórholti, Þverholti og Háteigsvegi. Á svæðinu er fyrst og fremst gamalt iðnaðar- og atvinnuhúsnæði sem er að úreltast, að sögn Jóhannesar Kjarvals hjá skipulags- og byggingarviði Reykjavíkurborgar. Þar á meðal er gamla Sól-Víking húsið, DV-húsið við Þverholt og húsið að Einholti 4 sem er í eigu Seðlabankans.

Tillagan að deiliskipulaginu gerir ráð fyrir að öll húsin á svæðinu megi rífa en að sögn Kjartans Mogensens, annars höfundar tillögunnar, er þó ólíklegt að það verði raunin með hvert einasta hús, og nefnir þar sérstaklega DV-húsið og hús Seðlabankans sem líklegra er að byggt verði ofan á. Þá er gert ráð fyrir í tillögunni að bæði verði byggt verslunar- og skrifstofuhúsnæði og íbúðarhúsnæði með allt að 240 íbúðum, og með hæðartakmörkun upp á sex hæðir.

Keflavíkurverktakar eiga langstærstan hluta lóðarinnar, eða um 7000 fermetra af þeim 9000 sem svæðið nær yfir, og hyggjast þeir rífa allar byggingarnar á reitnum.

Tillaga að deiliskipulagi hefur verið í svokallaðri auglýsingu hjá Borgarskipulagi Reykjavíkur undanfarna mánuði en að því loknu, eða í seinni hluta febrúar, mun koma í ljós hvort hún verði samþykkt.

Kynningarfundur um deiliskipulagið, sem og fleiri svæði í nágrenninu, t.a.m. hið svokallaða Hlemm + svæði og Hampiðjureitinn, fer fram á Kjarvalsstöðum klukkan 17 í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×