Innlent

Vegagerðin og Landssamband lögreglumanna í hár saman

Ljósm: ©Stefán Karlsson,

Talsmaður Vegagerðarinnar segir Landssamband lögreglumanna vega að starfsheiðri umferðareftirlitsmanna. Segir hann landssambandið misskilja fyrirhugaðar breytingar á umferðareftirliti Vegagerðarinnar.

Í svari Vegagerðarinnar við gagnrýni landssambandsins á framkomið frumvarp ríkisstjórnarinnar til breytinga á umferðarlögum segir að landssambandið hafi einkum gagnrýnt þá þætti frumvarpsins sem lúti að umferðareftirliti Vegagerðarinnar. Talsmaður hennar segir landssambandið hafa haft uppi ýmsar fullyrðingar um umrætt frumvarp sem ekki standist með nokkru móti. Ennfremur segir hann landssambandið hafa vegið að starfsheiðri og trúverðugleika umferðareftirlitsmanna. Að því sé látið liggja að þeir hafi hvorki faglega hæfni né heimildir til að stunda eftirlit. Talsmaður Vegagerðarinnar segir hana hins vegar árum saman hafa haft hlutverk við eftirlit á þjóðvegum.

Talsmaður Vegagerðarinnar segir landssambandið virðast álíta að eftirlitsmönnum Vegagerðarinnar verði falin eftirför og valdbeiting gagnvart bílstjórum. Segir hann þetta vera misskilning. Ef til þess komi að bílstjóri neiti að hlýta eftirliti munu eftirlitsmenn Vegagerðarinnar kalla á lögreglu til aðstoðar líkt og áður. Landssambandið hafi því mátt kynna sér málið betur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×