Innlent

Gömlu bækistöðvar Landhelgisgæslunnar hugsanlega seldar

Á næstu dögum verður ákveðið hvort ríkið selji lóðina sína við Seljaveg þar sem Landhelgisgæslan hefur haft bækistöðvar sínar í rúmlega hálfa öld. Landhelgisgæslan flutti þaðan um helgina og er óvíst hvort ríkið hafi þörf fyrir húsnæðið áfram.

Landhelgisgæslan flutti formlega starfsemi sína frá Seljavegi 32 að Skógarhlíð 14 í dag. Þar, í björgunarmiðstöðinni, verða höfuðstöðvar hennar í framtíðinni. Gæslan hefur verið með höfuðstöðvar sínar við Seljaveg síðan 1952, eða í 53 ár.

Lóð Gæslunnar þar er stór og ekki að efa að verðmæti hennar sem byggingarlóð er gríðarmikið. Björn Hafsteinsson hjá Fjármálaráðuneytinu sagði í samtali við fréttastofu í dag að verið væri að kanna hvort einhver ríkisstofnun eða ráðuneyti hafi áhuga á að nýta þetta húsnæði.

Hann sagði að að sjálfsögðu væri ekki nokkur áhugi á að láta húsnæðið standa autt og komi á daginn að ríkið þurfi ekki á þessu húsnæði eða lóð að halda, þá blasi við að svæðið verði auglýst til sölu. Ákvörðunar þar að lútandi er að vænta á næstu dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×