Innlent

Eimskip skráir skip sín í Færeyjum

Eimskip hefur ákveðið að skrá allan áhafnarekstur sinn í Færeyjum á næstu vikum en í Færeyjum bjóða stjórnvöld fyrirtækjum á þessu sviði endurgreiðslu á tekjuskattsgreiðslum áhafna upp á tuttugu og átta prósent. Vélstjórar eru óhressir með þróun mála og hafa ítrekað farið fram á það við íslensk stjórnvöld að þau grípi til aðgerða.

Með þessari breytingu mun Eimskip verða þriðja skipafyrirtiækið sem færir skip sín á skrá til Færeyja en fyrir hafa Samskip og Keilir skráð skip sín þar. eimskip rekur í Færeyjum eitt stærsta fyrirtækja eyjanna og er það mat þeirra að með þessari hagræðingu muni íslenskir sjómenn verða samkeppnishæfari á alþjóðlegum markaði. Þessu er Vélstjórafélag 'islands ekki sammála og hefur félagið ítrekað gagnrýnt íslensk stjórnvöld fyrir að fara ekki sömu leið og Færeyingar og aðrar Evrópuþjóðir. Óttast vélstjórar að innan fárra ára muni áratuga þekking og reynsla farmanna á Íslandi heyra sögunni til.

Baldur Guðlaugsson hjá Fjármálaráðuneytinu sagði í samtali við fréttastofu fyrir skömmu að ekki stæði til að stofna alþjóðlega skipaskrá hér á landi. Málið hafi verið rætt á þingi í fyrra og nefnd skipuð sem komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri séð að slík skrá myndi skipta sköpum fyrir farmannastéttina og því vantaði rökstuðning fyrir því að ríkisstyrkja þá atvinnugrein umfram aðrar. Hann sagði enn fremur að málið yrði þó áfram til skoðunar enda væri það búið að vera upp á borðinu í tæp tuttugu ár og því sífellt til endurskoðunar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×