Innlent

Landlæknir varar einstaklinga og fyrirtæki við því að birgja sig upp af fuglaflensulyfjum

Landlæknir varar eindregið við því að einstaklingar og fyrirtæki birgi sig upp af lyfjum vegna fuglaflensunnar. Það geti leitt til þess að birgðir gangi til þurrðar, og það sem verra er, að ótímabær notkun lyfsins vegna venjulegrar flensu geti leitt til ónæmis. Hann segist munu spyrna við fótum ef fyrirtæki taki upp á því í miklum mæli að hamstra lyfið.

Stjórnvöld á Vesturlöndum hafa á undanförnum misserum birgt sig upp af inflúensulyfinu Tamíflú, sem talið er að geti dregið úr áhrifum fugleglensunnar ef hún fer að berast á milli manna. Þó eru skiptar skoðanir um virkni lyfsins.

Hér á landi eru nú til tæplega 90 þúsund skammtar af lyfinu, og í fréttaþættinum Kompás sem sýndur var á NFS og Stðð 2 í gær kom fram að nú þegar hefur eitt fyrirtæki orðið sér úti um lyfið fyrir alla starfsmenn sína.

Lyfið er lyfsseðilskylt og landlæknir segir fyrirtæki ekki geta gert þetta nema trúnaðarlæknir skrifi lyfseðil fyrir hvern og einn starfsmann fyrirtækisins. Hann hefur heyrt af vangaveltum manna að undanförnu um að það gæti borgað sig að birgja sig upp af þessu lyfi, en mælir eindregið gegn því, meðal annars vegna þess að þetta er enn sjúkdómur fugla og berst ekki á milli manna.

Í öðru lagi er sjúkdómurinn ekki enn kominn hingað til lands og það mun ekki gerast fyrirvaralaust, þannig að fólk hefur nægan tíma til að undirbúa sig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×