Innlent

Íslandsbanki styrkir Krabbameinsfélag Íslands

Í dag veitti Íslandsbanki Krabbameinsfélagi Íslands fjörtíu milljóna króna styrk. Styrkurinn verður notaður til að kaupa ný stafrænt röntgentæki sem nýtist til forvarnarstarfs Krabbameinsfélagsins.

Leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands hefur staðið að fyrir hópleit með röntgenmyndum af brjóstum í hartnær átján ár. Á þessum tíma hafa orðið miklar tækniframfarir og því hefur félagið ákveðið að endurnýja tækjakost sinn og festa kaup á fimm nýjum leitartækjum enda tæki þess komin nokkuð til ára sinna. Árangur starfs Krabbameinsfélagsins er ótvíræður þar sem dánartíðni vegna leghálskrabbameins hefur lækkað um 73 prósent og vegna brjóstakrabbameins um 32 prósent. Íslandsbanki hefur ákveðið að styrkja umrædd tækjakaup um fjörtíu milljónir sem verður varið í kaup á fyrsta tækinu. Af þessu tilefni efndu Krabbameinsfélagið og Íslandsbanki til blaðamannafundar í dag þar sem Guðrún Agnarsdóttir forstjóri Krabbameinsfélagsins og Kristján Sigurðsson yfirlæknir tóku við styrknum fyrir hönd Krabbameinsfélagsins. Það var Pétur Þ. Óskarsson forstöðumaður kynningarmála og fjárfestatengla Íslandsbanka sem afhenti styrkinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×