Innlent

Bjórinnflytjendur reyna að lokka til sín 15 og 16 ára skólabörn

Unglingadrykkja er vaxandi vandamál, sem tekur á sig ýmsar myndir. Meðal annars eru talsverð brögð að því að reynt sé að markaðssetja áfengi í skólum. Þar eru á ferðinni bæði innflytjendur og veitingastaðir sem setja sig í samband við einhverja nemendur, gjarnan í forystu nemendafélaga, og geri þeim tilboð. Svo eru haldin bjórkvöld eða einhverskonar teiti sem ganga gjarnan undir dulnefnum eins og skák- eða tölvukvöld. Í sumum tilfellum segja nemendur jafnvel foreldrum sínum að þau séu að fara á bjórkvöld á vegum skólans.

Sigríður Hulda Jónsdóttir, verkefnisstjóri í forvörnum leggur áherslu á að bjórkvöld séu aldrei á vegum neins skóla. Þvert á móti berjast skólayfirvöld eftir mætti gegn þessum samkomum. Meðal annars hafa skólar bannað að auglýsa innan sinna veggna hverskonar samkomur sem ekki eru í þeirra húsnæði. Gallinn er sá að unglingarnir eiga auðvelt með að koma auglýsingum til skila eftir öðrum boðleiðum, eins og til dæmis SMS skilaboðum og tölvupósti. Aðkoma veitingastaða að svona uppákomum er auðvitað bæði siðlaus og ólögleg.

Sigríður segir að forvarnarfulltrúar hafi fundað með lögreglunni vegna þessa, en viðurlög séu ekki ströng. Í fyrsta skipti fái veitingastaðir aðvörun, í annað skipti sé þeim lokað í eitt kvöld, og næst sé kannski búið að skipta um kennitölu og nafn, og leikurinn hafinn aftur.

Sigríður ráðleggur foreldrum að fylgjast grannt með börnum sínum, og fullvissa sig um það þegar þau segist vera á leið á skólasamkomu að sú samkoma sé í raun á vegum skólans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×