Innlent

Landsvirkjun leggur Norðlingaölduveitu til hliðar

Þorsteinn Hilmarsson, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar.
Þorsteinn Hilmarsson, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar. MYND/Gunnar V. Andrésson

Landsvirkjun hefur ákveðið að hætta við undirbúning að Norðlingaölduveitu að svo stöddu. Landsvirkjun mun þess í stað einbeita sér að öðrum virkjunarkostum á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem fyrirtækið sendi frá sér en ákvörðun um þetta var tekin á fundi stjórnar Landsvirkjunar í dag. Að sögn Þorsteins Hilmarssonar, upplýsingafulltrúa Landsvirkjunar, var ákvörðunin tekin meðal annars vegna þeirrar umræðu sem orðið hefur um málið í samfélaginu og þeirrar andstöðu sem er við Norðlingaölduveitu.

Þorsteinn segir að búið sé að fá samþykktar virkjanir í neðri Þjórsá og áður hafi verið hafnar framkvæmdir við Búðarhálsvirkjun í Túná. Þetta séu virkjanakostir sem séu komnir vel áleiðis og öll leyfi hafi verið fengin svo þeir munu einbeita sér að þessum kostum í stað Norðlingaölduveitu.

Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, segir þetta skref í rétta átt en er þó ósáttur við að Landsvirkjun sé ekki tilbúin að lýsa því yfir að hætt verði alveg við virkjunarframkvæmdir á svæðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×