Erlent

Þrír hafa slasast alvarlega á nautahátíð í Kólumbíu

Þrír hafa slasast alvarlega á Nautahátíðinni í Kólumbíu, sem haldin er árlega í fjölda bæja í norðurhluta landsins, eftir að hafa orðið fyrir barðinu á skepnunum sem hátíðin er kennd við. Níu til viðbótar hafa þurft að leita sér læknishjálpar vegna minniháttar áverka. Mannsskaðinn er hins vegar langt undir því sem stundum verður á hátíðinni sem kostar að meðaltali tuttugu mannslíf á ári, en samfara atinu í nautunum er mikið at á krám og götum bæjanna þar sem hátíðin er haldin og áfengisdrykkja og ofbeldi setur sterkan svip á herlegheitin. Ólíkt hinu víðfræga nautaati á Spáni þá eru nautin sem notuð eru á hátíðinni í Kólumbíu ekki aflífuð, heldur öðru nær því þau naut sem sýna þreytumerki eftir ærslaganginn fá að fara afsíðis til að kasta mæðinni. Þau langlífustu taka jafnvel þátt í hátíðinni oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, eða eins oft og aldur og fyrri störf leyfa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×