Innlent

Engin byrði á samfélaginu

MYND/Teitur

Gamalt fólk er ekki byrði á samfélaginu segir Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sparisjóða. En í dag var undirritaður samningur um rannsókn á framlagi eldra fólks til samfélagsins í húsakynnum Félags eldri borgara.

Rannsóknin er samstarfsverkefni Félags eldri borgara, Rannsóknarstofnunar Kennaraháskóla Íslands og Sambands íslenskra sparisjóða. Þetta er tímamótarannsókn, þar sem ekki er vitað til þess að sambærilegt verkefni hafi áður verið framkvæmt í heiminum.

Ingibjörg H. Harðardóttir, lektor í sálfræði við Kennaraháskóla Íslands, stýrir framkvæmd verkefnisins, og segir hún meginmarkmið rannsóknarinnar að kanna hvert framlag eldri borgara sé til samfélagsins, hvert framlag samfélagsins væri til eldri borgara og ennfremur hverjar skoðanir almennings væru á þessu gagnkvæma framlagi.

Bryndís Víglundsdóttir, sem á sæti í undirbúningshópi Félags eldri borgara vegna rannsóknarinnar, sagði meðal annars í erindi sínu í dag að nokkur umræða hafi verið um kjör og aðbúnað fólks sem orðið er lasið og ósjálfbjarga og býr á stofnunum fyrir aldraða. Ítarleg rannsókn á framlagi eldra fólks til samfélagsins er löngu tímabært verkefni og umræðan snýst allt of oft um það, að þessi hópur sé í raun ekkert annað en byrði á samfélaginu, sem er ekki rétt segir Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sparisjóða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×