Innlent

Fjórtán og hálfs árs fangelsi fyrir manndráp

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í morgun Sigurð Frey Kristmundsson í fjórtán og hálfs árs fangelsi fyrir að bana Braga Halldórssyni í íbúð við Hverfisgötu í ágúst síðastliðnum. Sigurður Freyr stakk Braga með hnífi í brjóstholið með þeim afleiðingum að hann lést skömmu síðar.

Að morgni laugardagsins 20. ágúst barst lögreglunni tilkynning um að maður hefði verið stunginn í hjartastað í íbúð við Hverfisgötu. Þrennt var handtekið en þremenningarnir voru í íbúðinni þegar atburðurinn átti sér stað. Bragi var meðvitundarlaus þegar lögregla kom á staðinn og var hann fluttur á slysa- og bráðadeild Landspítalans í Fossvogi þar sem hann lést um klukkustund síðar. Sigurður sagði fyrir dómi að smávægilegt rifrildi hafi komið upp á milli hans og Braga sem endað hefði með fyrrgreindum afleiðingum. Sigurður rauk því næst út úr íbúðinni að sækja hjálpa að eigin sögn. Lögregla hafði upp á honum stuttu síðar en hann hefur setið í gæsluvarðhaldi frá handtöku. Sigurður játaði fyrir dómi að hafa orðið Braga að bana en hann neitaði að um ásetning hefði verið að ræða. Sigurður var í mikilli fíkniefnaneyslu á þessum tíma en að eigin sögn hafði hann verið búinn að vaka meira og minna í tvær vikur og því veruleikafirrtur og í annarlegu ástandi.

Samkvæmt krufningarskýrslu lést Bragi af völdum stungu í hjarta og lifur. Eins og fram kemur í dómnum er ekki vitað hvort hann hafi verið undir áhrifum áfengis eða fíkniefna, vegna mikillar blóðgjafar og annarra vökva á meðan á aðgerð stóð á slysadeild. Rannsókn geðlæknis leiddi í ljós að Sigurður væri sakhæfur. Þrátt fyrir að hann hafi verið í mikilli fíkniefnaneyslu á þessum tíma þótti dómurum ljóst að hann hefði sjálfur komið sér í það ástand og því leysti það hann ekki undan refsiábyrgð. Sigurður var dæmdur til að greiða um 6,9 milljónir króna í skaðabætur, þóknun, sakakostnað og málsvarnarlaun. Hluti af refsingunni er vegna fimm umferðarlagabrota og þjófnaðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×