Innlent

Gamla Hraðfrystistöðvarhússið horfið

MYND/Valgarður

Gamla Hraðfrystistöðvarhúsið við Mýrargötu er nú endanlega horfið, þremur vikum eftir að byrjað var að rífa það. Andlit hússins féll í kvöld.

Þar með lýkur ríflega 60 ára sögu þess. Það var byggt árið 1941 og verið stækkað nokkrum sinnum en engin starfsemi hefur verið í því í fjölda ára. Eignarhaldsfélagið Nýja Jórvík á lóðina sem húsið stendur á og þar stendur til að byggja sjö hæða íbúðarhús, en framkvæmdir við það hefjast í haust.

Á lóðunum beggja vegna stendur einnig til að rífa hús og byggja upp á nýtt en eitt elsta steinhús borgarinnar, sem er steinsnar frá, verður hins vegar óhreyft. Eins og greint hefur verið frá í fréttum stendur til að endurskipuleggja Mýrargötu- og slippasvæðið allt með það að markmiði að fjölga íbúum á svæðinu.

En það var óneitanlega tilkomumikið þegar framhlið Hraðfrystihúsissins var látin hrynja en umferð um Mýrargötu var stöðvuð á meðan á því stóð. Allt gekk slysalaust fyrir sig en kalla þurfti til hreinsunarbíla til að hreinsa götuna eftir hrunið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×