Stuart Pearce hélt upp á nýjan samning sinn við Manchester City með sigri í kvöld þegar hans menn slógu Aston Villa út úr enska bikarnum með 2-1 sigri á heimavelli sínum. Þetta var síðari leikur liðanna eftir að jafnt var í fyrri leiknum á Villa Park.
Georgios Samaras kom heimamönnum yfir eftir stundarfjórðung og Darius Vassell kom City í 2-0 í upphafi síðari hálfleiks. Steven Davis náði að minnka muninn fyrir Villa á 85. mínútu og eftir það hljóp nokkur taugatitringur í heimamenn, sem náðu þó að halda út og landa sigrinum.
Manchester City er því komið í átta liða úrslit keppninnar þar sem það mætir annað hvort Bolton eða West Ham. Þessi lið eigast við annað kvöld og verður sá leikur í beinni útsendingu á Sýn.