Innlent

Ekkert óeðlilegt við viðskipti KB banka með íbúðabréf segir Fjármálaeftirlitið

Fjáramálaeftirlitið telur ekki ástæðu til að skoða frekar viðskipti KB banka með íbúðabréf á degi sem Íbúðalánasjóður var með útboð á íbúðabréfum sínum í lok nóvember á síðasta ári.

Íbúðalánasjóður óskaði eftir því í desember að Fjármálaeftirlitið kannaði hvort viðskipti KB-banka með skuldabréf Íbúðalánasjóðs rétt fyrir lokun markaða hinn 22. nóvember síðastliðinn stangaðist á við ákvæði laga um verðbréfaviðskipti og samræmdist góðum viðskiptaháttum.

Gunnar S. Björnsson, formaður stjórnar Íbúðalánasjóðs, hefur sagt að stjórnin teldi að framferði KB-banka þennan dag, þegar Íbúðalánasjóður bauð út skuldabréf fyrir 3 milljarða króna, hafi skaðað lántakendur Íbúðalánasjóðs. En að þeirra mati bendi margt til að KB banki hafi sett á stað óeðlilega atburðaráðs í útboði sjóðsins í nóvember sem hafi leitt af sér verri niðurstöðu fyrir sjóðinn. Forsvarsmenn KB banka hafa alfarið hafnað þessu og segja ekkert óeðlilegt við viðskipta bankans með íbúðabréf þennan tiltekna dag.

Fjármálaeftirlitið tók fyrir erindi Íbúðalánasjóðs vegna málsins og kallaði eftir skýringum frá KB banka á viðskiptum bankans með íbúðabréf á útboðsdegi. Í tilkynningu frá Fjármálaeftirlitinu segir að í svari bankans hafi komið fram fullnægjandi skýringar á sölu íbúðabréfa þennan dag og því séu ekki forsendur til skoða málið frekar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×