Innlent

Sigrún Elsa gefur kost á sér í 2.-4. sætið

Sigrún Elsa Smáradóttir hefur ákveðið að bjóða sig fram í annað til fjórða sætið í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík sem fram fer 11. og 12. febrúar næstkomandi. Sigrún Elsa hefur verið varaborgarfulltrúi Reykjavíkurlistans síðast liðin tvö kjörtímabil og á sæti í menntaráði og leikskólaráði Reykjavíkurborgar. Ennfremur er Sigrún formaður samstarfsnefndar um lögreglumálefni, varaformaður stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur og formaður hverfisráðs Hlíða. Sigrún Elsa er matvælafræðingur að mennt.

Í tilkynningu sem Sigrún Elsa sendi frá sér segir:

Sigrún Elsa Smáradóttir hefur ákveðið að bjóða sig fram í opnu prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík 11.-12. febrúar og sækist eftir stuðningi í 2.-4. sæti á framboðslista flokksins í borgarstjórnarkosningunum.

Sigrún Elsa hefur verið varaborgafulltrúi Reykjavíkurlistans sl. tvö kjörtímabil. Hún á sæti í menntaráði Reykjavíkur, áður í fræðsluráði og leikskólaráði, og var m.a. formaður starfshóps sem mótaði stefnu um gjaldfrjálsa vistun fyrir fimm ára börn í leikskólum sem verið er að hrinda í framkvæmd um þessar mundir.

Sigrún er ennfremur formaður samstarfsnefndar um lögreglumálefni, varaformaður stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur og formaður hverfisráðs Hlíða. Hún hefur einnig átt sæti í umhverfis- og heilbrigðisnefnd og íþrótta- og tómstundaráði.

Sigrún er matvælafræðingur og hefur meistaragráðu í viðskiptastjórnun (MBA). Hún hefur starfað sem markaðsstjóri hjá einkareknu fyrirtæki sl. tíu ár. En tók sér þó leyfi frá þeim störfum fyrir síðustu alþingiskosningar þegar hún starfaði sem pólitískur aðstoðarmaður Ingjbjargar Sólrúnar Gísladóttur.

Á næsta kjörtímabili leggur Sigrún Elsa áherslu á að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskólavistar, laga grunnskólann enn frekar að breyttum tímum og skapa þar aðstæður sem hvetja til einstaklingsmiðaðs náms. Hún vill stuðla að uppbyggingu Orkuveitu Reykjavíkur til hagsbóta fyrir borgarbúa og auka þar vægi umhverfisvænna áherslna við ákvarðanatöku.

Með þessum og fjölmörgum öðrum aðgerðum vill Sigrún skapa hagstæð skilyrði bæði fyrir fyrirtæki og mannlíf í borginni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×