Innlent

Trúnaðarmaður starfsmanna á Kárahnjúkasvæðinu rekinn

MYND/GVA

Einn trúnaðarmanna starfsmanna á Kárahnjúkasvæðinu var í dag rekinn úr starfi. Yfirtrúnaðarmaður á svæðinu segir engar skýringar hafa verið gefnar á uppsögninni. Upplýsingafulltrúi Impregilo segir að maðurinn hafi ítrekað gerst brotlegur í starfi. Oddur Friðriksson, yfirtrúnaðarmaður á svæðinu, vill að forsvarsmenn Impregilo svari því afhverju trúnaðarmaðurinn var rekinn úr starfi. Oddur ætlar að gefa Impregilo færi á að senda skriflega greinagerð í kvöld en svo verði gripið til viðeigandi ráðstafana. Fyrir uppsögn trúnaðarmanns verði að liggja ærnar ástæður.

Ómar R. Valdimarsson, upplýsingafulltrúi Impregilo, segir að umræddur starfsmaður hafi ítrekað gerst sekur um umferðarlagabrot og að fylgja ekki reglum sem fyrirtækið setur sínum starfsmönnum. Hann hafi þrisvar lent í umferðaróhappi og ekki haldið tímaskýrslu. Ómar segir ljóst að trúnaðarmenn þurfi einnig að fylgja settum reglum. Oddur telur að þær sakir sem starfsmanninum séu gefnar séu ekki á rökum reistar. Vissulega séu ástæður fyrir áminningunum en að hans mati séu þær einfaldlega ekki fullnægjandi heldur aðeins söguskýringar af hálfu öryggiseftirlits Impregilo.

Oddur telur að Íslendingar á svæðinu eigi undir högg að sækja en aðeins eru 38 íslenskir starfsmenn af þeim 1200 sem starfa hjá Impregilo. Ómar segir að gríðarlega mikil starfsmannavelta sé hjá fyrirtækinu. Íslendingar séu að sjálfsögðu velkomnir í vinnu hjá þeim. Illa hafi gengið að ráða Íslendinga þar sem eftirspurn hér á landi eftir starfsfólki sé mun meiri en framboðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×