Innlent

Skyndihjálparmaður ársins

Rauði kross Íslands valdi Guðrúnu Björk Sigurjónsdóttur sem Skyndihjálparmann ársins fyrir rétt viðbrögð á neyðarstundu en hún vann það einstaka þrekvirki að bjarga þriggja ára dreng og stúlku frá drukknun þegar þau lentu í sjónum á Snæfellsnesi í apríl í fyrra. Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, afhenti Guðrúnu Björk viðurkenninguna á Hótel Loftleiðum í dag við setningu ráðstefnunnar 112 í tíu ár - hvað hefur breyst, hvað er framundan?

Guðrún Björk var við skeljatínslu á Snæfellsnesi ásamt systur sinni og frænku og börnum þeirra allra. Allt í einu soguðust börnin tvö út þegar enginn sá til. Þegar Guðrún áttaði sig á hvað hafði gerst hóf hún björgunaraðgerðir og brást hárrétt við aðstæðum en Guðrún hafði lokið tveimur námskeiðum í skyndihjálp á vegum Rauða krossins.

Þetta er í fimmta sinn sem Rauði kross Íslands útnefnir Skyndihjálparmann ársins en viðurkenninguna hlýtur einstaklingur sem veitt hefur skyndihjálp á eftirtektarverðan hátt á árinu. Rauði krossinn veitti einnig eftirtöldum einstaklingum viðurkenningu fyrir skyndihjálparafrek á árinu 2005: Sigríði Guðjónsdóttur íþróttakennara á Bolungavík fyrir að hafa blásið lífi í 11 ára dreng sem var kominn að drukknun í skólasundi, Árna Valgeirssyni verkstjóra í fiskvinnslu á Stykkishólmi fyrir að hafa hnoðað lífi í vinnufélaga sinn sem varð hjartastopp, Oddný Þóru Baldvinsdóttir leikskólakennara í Vogum sem með réttum viðbrögðum losaði um aðskotahlut í hálsi samstarfskonu sinnar, og Jónu Björk Grétarsdóttir frjálsíþróttakennara í Vestmannaeyjum, fyrir að hefja tafarlausar endurlífgunaraðgerðir á manni sem hneig niður vegna hjartastopps.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×