Innlent

Fjórir starfsmenn skikkaðir til að skrifa undir þátttökuyfirlýsingu

Menntaskólinn á Ísafirði.
Menntaskólinn á Ísafirði. Mynd/BH

Fjórir starfsmenn Menntaskólans á Ísafirði fengu frest fram til hádegis til að skrifa undir samkomulag um þátttökuyfirlýsingu í svokölluðu skólaþróunarverkefni. Ólína Þorvarðardóttir, skólameistari menntaskólans á Ísafirði, segir að tveir starfsmenn hafi nú þegar skrifað undir en óvíst sé með undirskrift hinna tveggja starfsmannana. Hún segir að endanleg niðurstaða muni liggja fyrir á mánudag.

Á fréttavef Bæjarins besta á Ísfirði kemur fram að þrír af þeim fjórum starfsmönnum sem um ræðir, hafi tekið þátt í verkefninu án skuldbindinga. Það kemur einnig fram að skólameistari ætlist til að starfsmenn skrifi undir þátttökuyfirlýsinguna og geri starfsmaður það ekki, þá verði litið svo á að starfsmaðurinn hafi óhlýðnast tilmælum yfirmanns. Við því verði brugðist í samræmi við 21. grein starfsmannalaga þar sem segir meðal annars að hægt sé að veita starfsmanni skriflega áminningu, óhlýðnist starfsmaður í starfi. Þátttökuyfirlýsingin var send öllum starfsmönnum skólans í samráði við menntamálaráðuneytið en skólameistari hefur skuldbundið sig til að hafa samráð við ráðuneytið um beitingu valdheimilda og agaúrræða forstöðumanna, eins og fram kemur á Bæjarins besta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×