Innlent

Hásetarnir ungt fólk sem ekki hefur tekist að fóta sig á vinnumarkaði

Frá undirritun samnings Nýsis og Fjölsmiðjunnar. Frá vinstri: Þorbjörn Jensson, forstöðumaður, Stefán Þórarinsson, stjórnarformaður Nýsis, Kristján Guðmundsson, stjórnarformaður Fjölsmiðjunnar og Steinunn Guðnadóttir, fulltrúi SSH í stjórn Fjölsmiðjunnar.
Frá undirritun samnings Nýsis og Fjölsmiðjunnar. Frá vinstri: Þorbjörn Jensson, forstöðumaður, Stefán Þórarinsson, stjórnarformaður Nýsis, Kristján Guðmundsson, stjórnarformaður Fjölsmiðjunnar og Steinunn Guðnadóttir, fulltrúi SSH í stjórn Fjölsmiðjunnar. MYND/Vísir

Fjölsmiðjan í Kópavogi stefnir að útgerð 150 tonna báts á þessu ári þar sem áhöfnin verður skipuð unglingum sem ekki hefur tekist að fóta sig á almennum vinnumarkaði. Þekkingarfyrirtækið Nýsir og Fjölsmiðjan, hafa gert með sér samkomulag um stofnun sjávarútvegsdeildar við Fjölsmiðjuna. Nýsir mun leiða hóp stuðningsaðila Fjölmiðjunnar sem fjármagna bátakaupin og rekstur deildarinnar.

Markmið Fjölsmiðjunnar, sem starfrækt hefur verið í fimm ár, er að hjálpa og styrkja unglinga sem ekki hefur tekist að fóta sig í samfélaginu, þjálfa þá til vinnu og gera nemana virka á vinnumarkaði og skóla.

Stefán Þórarinsson, stjórnarformaður Nýsis, segir fyrirtækið leggja fé í bátakaupin, auk þess að fá fleiri bakhjarla til að sameinast um bátakaupin. „Það er samdóma mat þeirra sem hafa kynnt sér starfsemi Fjölsmiðjunnar að þar hafi náðst undraverður árangur. Því fögnum við því að geta verið þátttakendur í því að gera drauminn um íslenskt skólaskip að veruleika."

Þorbjörn Jensson, forstöðumaður Fjölsmiðjunnar, segir fulla þörf á því að koma sjávarútvegsdeildinni á legg. „Hugmyndin er sú að áhöfn bátsins verði skipuð ungu fólki, að undanskildum skipstjóra, stýrimanni og vélstjóra. Um borð fá nemarnir tækifæri til þess að kynnast sjómennskunni, aðlagast lífinu á sjó og læra réttu handbrögðin. Markmiðið er að nemar Fjölsmiðjunnar geti síðan verið gjaldgengir skipverjar og svarað kallinu þegar vanan háseta vantar á bát."

Sérstakur rekstur verður um sjávarútvegsdeild Fjölsmiðunnar og markmiðið er að verðmætasköpun skólaskipsins standi að mestu undir rekstri deildarinnar.

Fjölsmiðjan var formlega stofnuð 15. mars árið 2001. Stofnendur eru félagsmálaráðuneytið/Vinnumálastofnun, Rauði kross Íslands, Reykjavíkurborg, Hafnarfjarðarbær, Kópavogsbær, Seltjarnarnesbær, Mosfellsbær, Garðabær og Bessastaðahreppur. Menntamálaráðuneytið hefur greitt rekstrarfé til Fjölsmiðjunnar og á fulltrúa í stjórn hennar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×