Innlent

Ósanngjarnar forsendur

Baráttumenn fyrir jarðgöngum til Vestmannaeyja taka fréttum um að kostnaðurinn geti numið allt að 100 milljörðum króna með fyrirvara. Þeim þykir óeðlilegt að miða við ströngustu kröfur um jarðgöng í Evrópusambandinu, þar sem reiknað er með miklu meiri umferð en hér á landi.

Nýtt mat Vegagerðarinnar á kostnaði við gerð jarðganga milli lands og Eyja gæti orðið rothöggið á verkefnið. Þrír óháðir vísindamenn telja aðstæður svo erfiðar að kostnaður yrði á bilinu 70 til 100 milljarðar króna. Forsvarsmenn Ægisdyra, sem beita sér fyrir jarðgöngum til Eyja, ætla að gefa sér tíma til að fara yfir forsendurnar - en fyrstu viðbrögð eru efasemdir um að rétt sé að fara eftir ströngustu öryggiskröfum innan ESB.

Ingi Sigurðsson, formaður Ægisdyra, segir að gert sé ráð fyrir tvöföldum göngum með flóttaleiðum í hinu nýja mati. Það byggist á skilyrðum sem varla hafi tekið gildi innan ESB og eigi ekki við hér á landi, ekki síst í því ljósi að Ísland er ekki aðili að sambandinu.

Nýja kostnaðarmatið er um 40 milljörðum króna yfir mati Hagfræðistofnunar HÍ og meira en 80 milljörðum króna hærra en mat sem Árni Johnsen, fyrrverandi alþingismaður, aflaði sér hjá starfsmönnum verktakafyrirtækisins NCC, mati sem yfirmenn samsteypunnar í Noregi þvo hendur sínar af, fyrst fyrir rúmu ári og nú aftur með ítrekun til NFS fyrir hálfum mánuði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×