Innlent

Grunnvatnsstaða enn langt yfir meðallagi hér á landi

Víða frá meginlandi Evrópu berast fréttir af miklum þurrkum og nú síðast segir dagblaðið Aftenposten frá því að orkuverð til norskra fjölskyldna muni líkast til rjúka upp úr öllu valdi í haust, þegar þarlendar vatnsaflsvirkjanir hafa ekki nægilegt vatn til að knýja rafala. Annað er hins vegar uppi á teningnum hér, og hefur verið síðustu árin.

Óli Grétar Sveinsson, deildarstjóri hjá Landsvirkjun, segir vindinn ekki hafa verið nógu mikinn í sumar til að bera rigninguna inn á hálendið, til þess að úrkoman í sumar hafi nokkur teljandi áhrif á grunnvatnsstöðuna. Auk þess sé, í svona hægum vindi, stöðugt þokuloft yfir jöklinum þannig að bráðnun sé mun minni en ella. Grunnvatnsstaðan sé því örlitlu lægri en verið hefur síðustu þrjú árin þrátt fyrir að íbúar suðvesturhornsins kvarti sáran yfir vætutíðinni. Hún er þó enn langt yfir meðaltali og lón Landsvirkjunar því full svo út úr flóir, fyrr en venjulega á þessum árstíma.

Að því gefnu að andrúmsloftið haldi áfram að hlýna, má búast við því að úrkoma á landinu fari vaxandi heldur en hitt, auk þess sem herðir á bráðnun jökla. Má þá gera því í skóna að orkugeta Landsvirkjunar aukist með betri nýtingu þeirra virkjana sem fyrir eru. Nokkrar virkjana Landsvirkjunar er hægt að stækka án mikillar fyrirhafnar, með því einu að byggja við stöðvarhúsin og bæta við tækjakosti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×