Innlent

Flúðu dalinn og gistu í íþróttahúsinu

Ánægðir flugfarþegar á leið um borð í vélina.
Ánægðir flugfarþegar á leið um borð í vélina. MYND/Heiða Helgadóttir

Um 150 mann þurftu að flýja Herjólfsdal í nótt þegar tjöld fóru að fjúka og gista í íþróttahúsinu. Aðrir skelltu sér á húkkaraball og var einn maður handtekinn eftir að hafa barið dyravörð.

Ekkert flug hefur verið til Vestmannaeyja í morgun vegna veðurs. Um 150 mann þurftu að flýja Herjólfsdal í nótt þegar tjöld fóru að fjúka. Aðrir skelltu sér á húkkaraball og var einn maður handtekinn eftir að hafa barið dyravörð.

Mikil þoka er í Vestmannaeyjum núna en vonast er til að henni létti eftir hádegi. Um 60 manns bíða eftir flugi en alls eiga um 300 til viðbótar bókað flug í dag. Útlit er fyrir að öllu flugi seinki vegna þessa en verið er að kanna hvort hægt sé að leigja fokker til að koma fólkinu til Eyjanna.

Örtröð myndaðist í Herjólfsdal í gær þegar Heimamenn byrjuðu daginn á því að slá upp tjöldum sínum. Herjólfur kom svo síðdegis í gær fullur af ferðalöngum á leið á þjóðhátíð. Alls gistu um 600 manns í Herjólfsdal í nótt og þurftu 150 þeirra að flýja dalinn þegar skyndilega hvessti og tjöld tóku að fjúka. Þeir fengu inni í íþróttahúsi bæjarins.

Þá var ungur maður var handtekinn í Vestmannaeyjum i nótt eftir að hann hafði barið dyravörð á veitingahúsi þannig að hann hlaut nokkurn áverka. Dyravörðurinn var fluttur á sjúkrahúsið þar sem sauma þurfti í vör hans og tönn reyndist brotin. Fimm aðrir voru handteknir eftir að þeir brutu rúðu í verslun, en að öðru leiti voru ekki vandræði í bænum þrátt fyrir talsverðan mannfjölda.

Í gærkvöldi var hið alkunna húkkaraball. Fjöldi fólks skemmti sér konunglega á ballinu en engum sögum fer af því hvort og þá hverjum tókst að húkka sér maka.

Nú hefur stytt upp og vind lægt í Eyjum og er allt útlit fyrir að veðrið verði ágætt þar um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×