Innlent

Allir af nöglunum

Í dag eiga allir bifreiðaeigendur að vera búnir að skipta nagladekkjunum út fyrir sumardekkin. Veðrið í höfuðborginni í nótt og í morgun var þó síst til þess fallið að hvetja ökumenn til að fara af nöglum.

Um hálf níu leytið í morgun barst Lögreglunni í Reykjavík tilkynning um að strætisvagn hefði keyrt upp á umferðareyju við Kristnibraut í Grafarholti. Mikil hálka var þegar slysið átti sér stað og virðist sem að bílstjórinn hafi misst stjórn á vagninum. Bílstjórinn var einn í bílnum og sakaði hann ekki. En klukkutíma síðar var bílstjórinn kominn með nýjan vagn og farinn að keyra leið 18, frá Reynisvatni að Hlemmi, á nýjan leik.

Sjö árekstrar urðu í höfuðborginni þegar skyndilega frysti um fjögurleytið í nótt. Engan sakaði. Í dag, 15. apríl, eiga ökumenn að vera búnir að taka nagladekkin undan ökutækjum sínum og setja sumardekkin undir. Þeir sem aka um á nagladekkjum geta átt von á sekt að lágmarki 5.000 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×