Innlent

Íslenskur friðargæsluliði í stórhættu

Mikillar reiði gætir víða í Afganistan og kom til átaka milli mótmælenda og lögreglumanna nærri danska sendiráðinu í Kabúl.
Mikillar reiði gætir víða í Afganistan og kom til átaka milli mótmælenda og lögreglumanna nærri danska sendiráðinu í Kabúl. MYND/AP
Íslenskur friðargæsluliði í Afganistan var í stórhættu þegar ævareiðir múslímar réðust á búðir sem hann var staddur í og brenndu bifreið hans. Utanríkisráðuneytið varar Íslendinga við að ferðast til Mið-Austurlanda vegna ólgunnar sem þar er út af myndbirtingum af spámanninum Múhameð.

Friðargæsluliðinn, sem heitir Friðrik Jónsson, var staddur í Maymana-búðum Atlantshafsbandalagsins sem eru í norðvesturhluta Afganistan, þegar hópur bálreiðra múslima reyndi að komast þangað inn. Þeir vildu mótmæla myndbirtingu fjölmiðla af Múhameð spámanni og höfðu vitneskju um að í búðunum væri að finna Svía, Norðmenn og Finna.

Til heiftarlegra átaka kom fyrir framan búðirnar sem lyktaði með því að þrír mótmælendur voru skotnir til bana og á sjötta tug slasaðist, þar af sex norskir friðargæsluliðar. Friðrik sakaði hins vegar ekki en hann var staddur þarna til að sækja sérútbúna jeppa sem Íslendingar skildu þar eftir í desember.

Friðrik er ennþá í búðunum en hann hringdi strax í dóttur sína sem býr í Danmörku og lét vita að ekkert amaði að sér. Hann gaf ekki kost á viðtali í dag en að sögn utanríkisráðuneytisins lætur hann vel af sér. Annar jeppanna er gjörónýtur, líklega eftir að handsprengju var kastað að honum.

Í dag eru níu Íslendingar á vegum friðargæslunnar í Afganistan, átta í Sjaksjaran í vesturhluta landsins og einn í Kabúl, og býst Geir Haarde utanríkisráðherra síður við að atburðir dagsins hafi áhrif á þátttöku okkar í verkefnum NATO í landinu.

Vegna ólgunnar sem ríkir í Mið-Austurlöndum vegna myndanna af Múhameð gaf utanríkisráðuneytið út viðvörun til íslenskra ferðalanga um að ferðast ekki Sýrlands og Líbanon eins og sakir standa. Þá eru þeir Íslendingar sem staddir eru annars staðar á svæðinu hvattir til að sýna fyllstu aðgát.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×