Innlent

Loðnuvertíðin með ólíkindum

Loðna.
Loðna. MYND/Vilhelm Gunnarsson

Loðnuvertíðin nú í vetur er öll með miklum ólíkindum og segja Austfirðingar að hún sé að fljóta framhjá þeim án þess að svo mikið sem skilja eftir peningalykt, í víðasta skilningi þess orðs.

Í fyrsta lagi ætlaði loðnan aldrei að finnast þrátt fyrir ákafari leit en nokkur sinni fyrr. Þegar loks var hægt að gefa út veiðikvóta var hann aðeins 150 þúsund tonn, sem er lang minnsti kvóti á loðnuvertíð í meira en áratug.

Engar loðnubræðslur eru í gangi nema hvað ein og ein er gangsett daga og dag til að bræða úrgang frá loðnufrystingunni. Þær spúa því ekki svonefndri peningalykt dag og nótt alla vertíðina, eins og venjulega.

Ekkert kapp er í veiðunum, heldur þvert á móti, því allir eru að spara knappa kvóta sína til frystingar, sem gefur meira af sér en bræðslan. Dæmi eru um að Stærstu loðnuskipin séu hætt veiðum en frysti nú afla frá öðrum skipum, sem landa í þau úti á sjó, og ætli svo að taka sinn skammt síðar.

Loks lóna svo vinnsluskip úti á fjörðunum á meðan áhafnirnar eru að vinna úr afla þeirra um borð, áður en honum er svo landað til að vera útskipað strax aftur út í flutningaskip til útflutnings, svo dæmi séu tekin um þessa óvenjulegu loðnuvertíð á Austfjörðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×