Innlent

Gera ekki kröfu um annað sætið

MYND/Vilhelm

Konurnar sem komu næstar á eftir Önnu Kristinsdóttur í prófkjöri Framsóknarflokksins í Reykjavík gera ekki kröfu um annað sætið. Það lítur því út fyrir að tveir karlmenn leiði lista flokksins í komandi sveitarstjórnarkosningum.

Anna Kristinsdóttir sóttist eftir að leiða listann en hafnaði í öðru sæti í prófkjörinu og hefur hún ákveðið að gefa ekki kost á sér á lista flokksins. Óskar Bergsson sem sóttist einnig eftir fyrsta sætinu hafnaði í því þriðja. Bindandi kosning var aðeins í tvö efstu sætin en uppstillinganefnd tekur ákvörðun um endanlega lista. Ef að allir á listanum verða færðir upp um eitt sæti færist Óskar í annað sætið en hann hefur þó ekki gefið út hvort hann taki sæti á listanum. Ef svo fer að Óskar verður í öðru sæti þá verða það tveir karlmenn sem leiða listann en Björn Ingi Hrafnsson hafnaði í fyrsta sæti. Guðni Ágústsson, varaformaður Framsóknarflokksins, segir það Framsóknarfélaganna sjálfra að taka ákvarðanir um uppröðun á listum. Hins vegar hafi það verið skilyrði að á listum flokksins skipti konur tvö efstu sætin af fjórum.

Þær konur sem höfnuðu í fjórða og fimmta sæti prófkjörsins gera ekki kröfu um að kona verði í öðru sæti. Marsibil Sæmundardóttir sem hafnaði í fjórða sæti segir að flottara hefði verið að sjá konu og karl í tveimur efstu sætunum en reglurnar kveði hins vegar ekki á um það. Í sama streng tekur Ásrún Kristjánsdóttir sem hafnaði í fimmta sæti í prófkjörinu en hún telur eðlilegt að listinn færist upp í heild og Óskar taki annað sætið enda sé hann vel að því kominn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×