Erlent

Friðarhorfur í algjörri óvissu

Friðarhorfurnar fyrir botni Miðjarðarhafs eru í algerri óvissu eftir að í ljós kom að Hamas-samtökin herskáu hefðu unnið stórsigur í palestínsku þingkosningunum í gær. Fatah-hreyfingin fékk ekki nema 43 þingsæti en Hamas-samtökin 76.

Vitað var að Hamas-samtökunum myndi ganga vel í kosningunum en að þau myndu fá nánast tvöfalt meira fylgi en Fatah-hreyfing Mahmoud Abbas, forseta palestínsku heimastjórnarinnar, er nokkuð sem fæstir höfðu búist við. Eftir að út spurðist í morgun að Hamas hefði farið með sigur af hólmi baðst Ahmed Qureia, forsætisráðherra palestínsku heimastjórnarinnar, lausnar fyrir ríkisstjórn sína. Úrslitin voru svo kynnt nú laust undir kvöld og þá var stórsigur þessara samtaka, sem viðurkenna alls ekki tilverurétt Ísraelsríkis, formlega staðfestur.

Fullkomin óvissa ríkir nú um framtíð friðarferlisins fyrir botni Miðjarðarhafs því ísraelsk stjórnvöld hafa margítrekað að þau viðurkenni ekki ríkisstjórn Palestínumanna sem Hamas á aðild að og engin breyting hefur orðið á afstöðu Bandaríkjamanna til samtakanna þar sem þau hafa enn ekki ljáð máls á að afvopnast.

"Eins og við höfum áður sagt, þú getur ekki verið hálfur í stjórnmálum og hálfur í hryðjuverkum," sagði Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. "Þess vegna hefur stefna okkar gagnvart Hamas ekkert breyst."

Síðdegis kom til átaka á milli stuðningsmanna Hamas og Fatah-hreyfingarinnar, eftir að þeir fyrrnefndu hengdu græna fána samtakanna utan á þinghús Palestínumanna í Ramallah. Fylkingarnar létu grjóti rigna hvor yfir aðra í dágóða stund en að lokum skarst lögreglan í leikinn. Þótt ekki hafi orðið alvarleg meiðsl á fólki þykir uppákoman vera slæmur fyrirboði fyrir það sem í vændum er og því er ekki að undra að Ísraelar og fleiri íbúar svæðisins séu uggandi yfir þessum óvæntu úrslitum.

Þetta þýðir að samtök sem viðurkenna ekki tilvistarrétt Ísraelsríkis eru nú komin með hreinan meirihluta á palestínska þinginu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×