Erlent

Skutu japanskan sjómann út af landamæradeilu

Stríðsminjar um seinni heimsstyrjöldina á Kúrileyjum.
Stríðsminjar um seinni heimsstyrjöldina á Kúrileyjum. MYND/AP

Rússneska strandgæslan skaut í nótt á japanskan fiskibát við Kúrileyjaklasann með þeim afleiðingum að japanskur sjómaður lét lífið. Áratuga löng landamæradeila milli Rússlands og Japans um Kúrileyjarnar er enn óútkljáð - með þessum afleiðingum.

Rússneska strandgæslan skaut á fiskibátinn japanska nærri Kunashiri-eyju sem einnig er hluti af Kúrileyjaklasanum. Japönsk stjórnvöld krefjast þess að Rússar skili aftur þremur áhafnarmeðlimum sem teknir voru í áhlaupi á bátinn. Sovéski herinn hertók eyjarnar undir lok seinni heimsstyrjaldarinnar en stjórnvöld í Japan hafa alla tíð sagt hernámið ólöglegt og viljað fá yfirráð yfir eyjunum á ný. Við eyjarnar eru gjöful fiskimið og jafnvel er talið að þar megi finna olíu og jarðgas.

Þessi landamæradeila hefur hindrað það að Japanir og Sovétmenn og síðar Rússar skrifi undir sátt sem formlega bindi enda á stríðsátök seinni heimsstyrjaldarinnar. Pútín, forseti Rússlands, hefur boðist til að skila Japönum tveimur eyjanna en utanríkismálayfirvöld í Japan segja af og frá að semja um eitthvað minna en afhendingu allra eyjanna fjögurra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×